Ólíkindatólið Elon Musk, stofnandi Tesla, hefur sett tvö einbýlishús sín í Kaliforníuríki á sölu. Musk virðist því vera að efna loforð sem hann gaf á Twitter síðastliðinn föstudag, þess efnis að hann ætlaði að losa sig við „nánast allar“ veraldlegar eignir sínar.

Mush hefur átt það til að senda frá sér skilaboð sem hafa vakið furðu. Á verkalýðsdaginn dældi hann frá sér tístum á skömmum tíma. Meðal annars sagði hann að hann teldi verð hlutabréfa í Tesla væri of hátt en í kjölfarið féll verð á bréfunum um tíu prósent.

Í öðru tísti lýsti hann því yfir að hann ætlaði að losa sig við flestar veraldlegar eignir en fæstir gerðu sér í hugarlund að hann myndi standa við stóru orðin. Tvö einbýlishús hans í Kaliforníu hafa nú verið sett á sölu að því kemur fram á vef Bloomberg . Samanlagður verðmiði er 39,5 milljónir dollara, andvirði tæplega 5,8 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins.

Fasteignamarkaðurinn fyrir lúxusheimili í Los Angeles hefur hins vegar ekki verið í blússandi gangi undanfarna daga. Talsvert offramboð var á eignum í upphafi árs og ekki bætti veirufaraldurinn úr skák. Færri erlendir auðjöfrar hafa lagt leið sína til borgarinnar með það að marki að festa kaup á lúxuseignum og því minni hreyfing á þeim en ella.

Þrátt fyrir fall bréfa Tesla síðasta föstudag hefur gengi félagsins verið gott það sem af er ári en það hefur hækkað um 68% á árinu. Gengi bréfanna hefur síðan hækkað um 5,25% það sem af er degi.