*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 10. mars 2021 11:42

Setur upp 100 rampa og opnar kaffihús

Reisa á 100 rampa í miðborginni að frumkvæði Haraldar Þorleifssonar sem vinnur einnig að því að opna kaffihús.

Ritstjórn
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno.
Haraldur Guðjónsson

Haraldur Þorleifsson, hefur ekki slegið slöku við frá því að hann seldi Twitter hönnunarfyrirtæki sitt Ueno í byrjun ársins. Boðað hefur verið til blaðamannafundur klukkan 10.20 á morgun fimmtudag, í tilefni af því að setja á upp 100 rampa í miðborg Reykjavíkur fyrir fólk í hjólastólum á þessu ári í kjölfar söfnunarátaks sem Haraldur setti af stað sem ber yfirskriftina Römpum upp Reykjavík. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri taka til máls á blaðamannafundinum ásamt Haraldi. 

Haraldur, sem notast sjálfur við hjólastól, sagði í viðtali við Vísi að bæta þyrfti úr þessum málum í Reykjavík. Þá hafði Reykjavíkurborg samþykkt að stofna Aðgengissjóð Reykjavíkurborgar að frumkvæði Haraldar, þar sem greitt yrði allt að 80% kostnaðar rekstraraðila við að koma upp römpum við innganga bygginga. Haraldur og borgin lögðu bæði fram stofnframlag í sjóðinn.

„Stofnaður hefur verið sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem mun standa straum af meginkostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Með römpunum verður öllum gert kleift að sækja veitingastaði og verslanir þátttakenda í Reykjavík. Unnið verður í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvöld en borgin er stofnaðili að verkefninu og mun tryggja góðan framgang þess,“ segir í tilkynningu um verkefnið.

Opnar kaffihús við Tryggvagötu

Haraldur greindi einnig frá því á Twitter í gær að hann ynni að því að stofna kaffihús með litlum kvikmyndasal á jarðhæð Tryggvagötu 11. Félag Haraldar, Unnarstígur ehf., keypti jarðhæðina á 135 milljónir króna í janúar síðastliðnum sem telur tæplega 390 fermetra.

 

 

Þá hefur Twitter opnað skrifstofur á Íslandi, þar sem Haraldur mun starfa. Auglýsti hann í vikunni eftir forriturum til starfa fyrir fyrirtækið hér á landi.