Nýlegur dómur Hæstaréttar setur spurningarmerki við rekstur verðbréfasjóða og við kauphallarviðskipti almennt, að mati Einars Ingimundarsonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, og Jóns Helga Péturssonar, framkvæmdastjóra Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV. Í dómi sem féll í september síðastliðnum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að rifta mætti kaupum Landsbankans á eigin víxlum af Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV nokkrum dögum fyrir hrun.

„Með dómnum er verið að segja að hægt sé að rifta viðskiptum sem fara fram í gegnum Kauphöllina. Í dómnum segir að rekstrarfélag Skuldabréfasjóðs ÍV hefði átt að geta vitað að Landsbankinn sjálfur væri á bak við kaupin, en það er í raun ómögulegt fyrir okkur að vita það. Ef við hefðum hringt í Landsbankann og spurt hver væri raunverulegur kaupandi bréfanna hefði maðurinn á hinum endanum ekki mátt segja okkur það. En niðurstaða dómsins gerir í raun ráð fyrir því að þetta hefðum við getað gert og átt að gera,“ segir Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri RVÍV.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.