Sex stjórnarmenn af níu sem sitja í nefnd sem ákvarðar peningamálastefnu Englandsbanka greiddu atkvæði með stýrivaxtahækkun bankans í 5,75% fyrr í þessum mánuði, en þrír voru hins vegar á móti slíki hækkun. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var gerð opinber í gær. Mervyn King, seðlabankastjóri Englandsbanka, var á meðal þeirra sex sem studdu hækkun stýrivaxta, en við síðustu vaxtaákvörðun varð hann undir í atkvæðagreiðslu stjórnar bankans.

Klofningur innan nefndarinnar kom fæstum greiningaraðilum á óvart. Í skoðanakönnun sem Dow Jones fréttaveitan gerði á meðal hagfræðinga var því einróma spáð að sex stjórnarmenn bankans á móti þremur myndu greiða atkvæði með 25 punkta hækkun eins og varð raunin. Það var í fimmta skipti sem Englandsbanki hækkaði hjá sér stýrivexti frá því í ágúst á síðasta ári.

Fundargerðin varpar hins vegar einnig ljósi á að ekki ríkir algjör eining á meðal þeirra sex sem kusu með vaxtahækkun. Sumir þeirra töldu að núverandi verðbólguþrýstingur gæfi tilefni til þess að hækka vexti í þetta skiptið, en engu síður þýddi það ekki að þörf væri á frekari stýrivaxtahækkunum í bráð.

Þeir sem hafa aftur á móti verið talsmenn enn stífari peningamálastefnu af hálfu bankans sögðust sjá merki um að undirliggjandi verðbólga væri á uppleið í hagkerfinu. Af þeim sökum eru sumir sérfræðingar á þeirri skoðun að bankinn muni hækka hjá sér vexti um 25 punkta aftur í lok þessa árs.

Meirihluti nefndarinnar taldi einnig að veikur vinnumarkaður um þessar mundir "endurspeglaði hugsanlega tímabundna aukningu í atvinnuleysi", fremur en að hann gæfi til kynna viðvarandi samdrátt í eftirspurn. Í fundargerðinni kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að sú "hætta sé fyrir hendi að samdráttur verði á breskum fastaeignamarkaði og í einkaneyslu almennings, þá bendi hagtölur fyrir annan ársfjórðung ekki til þess að sú hætta hafi að einhverju marki aukist" að undanförnu.