Ríkislögreglustjóri hefur ákært sex einstaklinga vegna meintra auðgunarbrota í Baugsmálinu, samkvæmt fréttatilkynningu frá Skrifstofu ríkislögreglustjóra.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, Krístín Jóhannesdóttir, Jóhannes Jónsson, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs og tveir ónafngreindir endurskoðendur hafa verið ákærðir

?Rannsókn málsins hefur verið afar umfangsmikil og mjög tímafrek og krafist víðtækrar gagnaöflunar og húsleita í Færeyjum og Lúxemborg. Yfirheyrslur í málinu skipta hundruðum," segir í tilkynningu Ríkislögreglustjóra.

?Ákæra Ríkislögreglustjóra [...] er í 40 ákæruliðum og fjallar um ætluð brot ákærðu gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög og tollalögum."

Baugur Group segir í tilkynning í dag að ?málið mun ekki raska stöðu félagsins eða starfsemi, hér eftir sem hingað til. Það mun ekki hafa nokkur áhrif á fjárhagslega eða starfslega getu félagsins til að standa við skuldbindingar sínar."

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að Baugsmálið hafi ekki haft áhrif á samstarf Baugs við breska fjárfesta.

?Við eigum gott samband við okkar samstarfsaðila og upplýsum þá um gang mála. Við erum mjög ánægð með hve vel hefur gengið hjá okkur síðustu þrjú ár með þetta hangandi yfir okkur," sagði Gunnar.

Málsrannsóknin hófst fyrir um þremur árum þegar Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, lagði fram ákæru á hendur Baugsmönnum.

Í tilkynningu Baugs segir að rannsóknin hafi verið dregin á langinn og að hún hafa látin taka til fleiri atriða, ?sem eru alls óskyld upphaflegum ásökunum Jóns Geralds Sullengergers."

Fyrirtækið segir rannsóknina hafa miðast af því að ?finna réttlætingu fyrir harkalegum aðgerðum í upphafi, haustið 2002." Rannsóknin hófst með húsleit í kjölfar ákæru Jóns Geralds Sullenbergers.

Baugur segir aðgerðirnar hafa leitt til þess að áætlanir fyrirtækins um að taka þátt í kaupunum á breska tískuvörufyrirtækinu Arcadia hafi mistekist.
Heimildamenn blaðsins í London segja að Royal Bank of Scotland, sem hafi verið tilbúinn til þess að fjámagna kaupin á Arcadia með Baugi, hafi hætt við vegna málsins.

Arcadia var síðan keypt af breska fjármálamanninum Philip Green, með aðstoð Bank of Scotland.

Héraðsdómur Reykjavíkur móttók ákæruna í dag. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. ágúst n.k.