Íslendingar geta fengið allt að sex ára fangelsisdóm fyrir að móðga erlenda þjóðhöfðingja. Þetta rifjar tímaritið Economist upp í umfjöllun sinni um löggjöf og aðrar takmarkanir á málfrelsi sem þeir segja að sé að verða sífellt meiri.

Fjallar greinin um að á sama tíma og auðveldara er fyrir almenning að setja fram eigin skoðanir og málflutning á netinu er farið að nýta löggjöf gegn hatursorðræðu til að takmarka málfrelsi. Einnig nefna þeir aðgerðir öfgamanna og glæpamanna sem hræða fólk frá því að ræða ákveðin málefni.

Ekki minna frelsi í 12 ár

Vísa þeir í árlega rannsókn bandarísku hugveitunnar Freedom House, þar sem málfrelsið er tekið fyrir, sem segir að á árinu 2015 hafi málfrelsið lækkað í lægsta punkt sinn á 12 árum, við að stjórnmála-, glæpa- og hryðjuverkaöfl hafi leitast við að þagga niður í fjölmiðlum.

Féll hlutfall íbúa heimsins sem bjó við alveg frjálsa fjölmiðlun úr 38% árið 2005 í 31% árið 2015, en hlutfall þeirra sem bjó við tiltölulega frjálsa hækkaði úr 28% í 36%. Vísitala fjölmiðlafrelsis frá Reporters Without Borders hefur jafnframt lækkað um 14% frá árinu 2013.

Kína lægst meðal stórþjóða

Meðal stærstu þjóðanna skorar Kína lægst, en þó þar hafi aldrei verið frjáls fjölmiðlun þá jókst frelsið eftir fráfall Mao sem og með tilkomu tölvutækninnar. Nýr forseti landsins, Xi Jinping hefur nú lagt mikla áherslu á að takmarka tjáningarfrelsið á rafrænum miðlum og hefur frjáls umræða í háskólum verið stöðvuð. Eru nemendur og kennarar hvattir til að einbeita sér meira að Marxisma og Lenínisma. Í desember árið 2015 voru að minnsta kosti 49 fréttamenn í fangelsi í Kína samkvæmt Committee to Protect Journalists.

Sama sagan er í Egyptalandi þar sem eftir fall Mubarak komst á algert málfrelsi en bæði bræðralag múslima sem tók yfir og svo nýr forseti, Abdel-Fattah al-Sisi, sem steypti stjórn þeirra hefur takmarkað málfrelsið síðan.

Gamaldags löggjöf notuð í Evrópu

Sama hefur verið að gerast víða um heim, nefna þeir mörg dæmi í Evrópu, þar sem lög gegn hatursorðræðu sem og lög gegn hryðjuverkum hafa verið notuð til að sækja fólk til saka. Nefna þeir að 14 lönd Evrópu hafa löggjöf gegn guðlasti, en einnig að mörg lönd Evrópu hafi enn gamaldags löggjöf sem lítið hefur verið notuð en farið er að nota á ný, eins og banni við dónaskap gagnvart þjóðhöfðingjum.

Í þýskalandi sé grínisti nú að bíða ákæru eftir að hafa lesið ljóð um Erdogan forseta Tyrklands. Pólland og Portúgal hafi svipaða löggjöf sem og Ísland þar sem fræðilega séð geti maður lent í sex ára fangelsi fyrir að móðga erlenda þjóðhöfðingja.