Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffetts, hefur líklega hagnast um 3,5 milljarða Bandaríkjadala (325 ma. króna) á hækkun bréfa sex fjármálafyrirtækja á síðustu tveimur dögum.

Eftir miklar lækkanir framan af síðustu viku skutust bréf fjármálafyrirtækja aftur upp á fimmtudag og föstudag. Bréf Wells Fargo bankans, sem er sá fimmti stærsti í Bandaríkjunum og næststærsta fjárfesting Berkshire Hathaway, hækkuðu um 19% síðustu tvo daga. Það þýðir verðhækkun upp á 1,85 milljarða Bandaríkjadala (171,8 ma. króna) á hlutum Berkshire, sem eiga 290,7 milljón hluti í bankanum.

Þá hefur hlutur Berkshire í American Express hækkað um 1,12 milljarða dala (104 ma. króna) á tveimur dögum, auk þess sem hlutir félagsins í Bank of America, M&T Bank, SunTrust Banks og US Bancorp hækkuðu.

Þriðjungur fjárfestingar Berkshire lá í bönkum og fjármálafyrirtækjum í lok júní sl. Forbes tímaritið sagði Buffett vera næstríkasta Bandaríkjamanninn í þessari viku, á eftir Bill Gates, með eignir upp á 50 milljarða Bandaríkjadala.

Hlutabréf Berkshire hækkuðu um tæp 15% í viðskiptum á föstudag.

Reuters greindi frá.