Framboðsfrestur til stjórnar fasteignafélagsins Regins rann út í gær, en sex einstaklingar bjóða sig fram í stjórnina og tveir í varastjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Alls eru fimm stjórnarsæti í boði og er því ljóst að ekki verður sjálfkjörið í stjórnina. Allir núverandi stjórnarmenn bjóða sig fram til áframhaldandi setu, en auk þeirra býður Albert Þór Jónsson fram krafta sína.

Aðrir í framboði eru Benedikt K. Kristjánsson, Bryndís Hrafnkelsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir og Tómas Kristjánsson. Í varastjórn félagsins bjóða sig fram þau Finnur Reyr Stefánsson og Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir.

Þá hefur verið farið fram á margfeldiskosningu á aðalfundinum. Hún fer fram með þeim hætti að kosið verður milli einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis skal margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa skal og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum, sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Ef ekki er á atkvæðaseðli getið skiptingar atkvæða á milli þeirra sem þau eru greidd skal þeim skipt að jöfnu.