Úrvalsvísitalan lækkaði alla síðustu viku og gott betur því lækkun hefur nú mælst sex viðskiptadaga í röð. Á hverjum degi fyrir sig hefur lækkunin verið lítil og nemur samtals einungis 2,5% yfir þessa sex viðskiptadaga. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 20,1%. Í síðustu viku var dagsvelta með hlutabréf að jafnaði 2,5 ma.kr. en til samanburðar var dagsveltan 3,5 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Markaðurinn hefur því lekið niður í heldur litlum viðskiptum síðustu daga. Þau uppgjör fyrsta ársfjórðungs sem birt hafa verið hafa flest verið í takti við væntingar og ekki nema að litlu leyti hægt að skýra lækkun síðustu daga með upplýsingum úr uppgjörunum segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Að einhverju leyti er þó um að ræða aukinn söluþrýsting á hlutabréf í kjölfar uppgjöra. Í lækkun Úrvalsvísitölunnar síðustu sex viðskiptadaga vega bankarnir þyngst en KB banki hefur lækkað um 1,1%, Íslandsbanki um 0,5% og Landsbanki um 0,2%. Lækkunin hefur verið almenn en einungis tvö félög í Úrvalsvísitölunni hafa hækkað yfir þetta tímabil: Bakkavör (0,3%) og Og fjarskipti (2,5%).

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.