Aðeins sex félög í Kauphöll Íslands; Glitnir, Kaupþing, Landsbanki, Straumur, SPRON og Exista, eru með nægjanlegan seljanleika, samkvæmt ákvæðum 22. gr. reglugerðar um ákvörðun seljanlegra hlutabréfa, að því er segir í frétt frá Fjármálaeftirlitinu.

Í tilkynningunni segir:

„Flot er skilgreint sem fjöldi hluta í hlutafélagi sem er í boði á markaði hverju sinni. Hlutir í boði eru oftast færri en heildarhlutir í hlutafélagi og félög hafa mismikið flot. Oft er stór hluti hlutafjár í eigu fjárfesta sem líta á hlutabréfin sem langtímafjárfestingu.

Hlutabréf, sem tekið hefur verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, telst seljanlegt ef viðskipti með hlutabréfið eru stunduð daglega, flot er ekki undir 500 milljónum evra og ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:

a) meðalfjöldi viðskipta með hlutabréfið er ekki undir 500 á dag

b) meðaldagsvelta hlutabréfsins er ekki minni en 2 milljónir evra.“