Gert ráð fyrir að sex hæða íbúða- og verslunarbygging rísi á Landsbankareitnum svokallaða en hún er meðal dýrustu lóða í Reykjavík

Sítus hefur auglýst til sölu lóðina á hinum svokallaða Landsbankareit, en um er að ræða lóð milli Geirsgötu og Tryggvagötu, við hlið Tollhússins. Nær hún yfir helming bílastæðanna sem eru þar, nær Tollhúsinu.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Pétri Eiríkssyni, stjórnarformanni Sítusar að þetta sé dýr lóð á besta stað í bænum. „Vonir standa til að við fáum gott verð fyrir hana.“

Sítus ehf., félag í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins, keypti lóðina af þrotabúi Landsbankans árið 2008. Lóðinni hefur verið skipt í tvo byggingarreiti. Nú er auglýst sala á byggingarreit nr. 1.

Sex hæða hús má rísa á byggingarreitnum sem yrði að hámarki 9.350 fermetrar auk 400 fermetra kjallara. Á fyrstu og annarri hæð byggingarinnar er gert ráð fyrir að verði verslunar- og þjónustustarfsemi en íbúðir á efri hæðum. Innigarður verður í miðju byggingarinnar og þakið verður einnig nýtt til útiveru. Innkeyrsla verður í bílakjallara í bygginguna Tryggvagötumegin.