Hagnaður matvælafyrirtækisins Alfesca jókst um 47% í 17,7 milljónir evra (1,55 milljarða króna) eftir skatta á fyrstu sex mánuðum fjárhagsársins, sem hófst þann 1. júlí á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Sala á öðrum ársfjórðungi nam 235 milljónum evra, sem er 6,1% aukning frá síðasta ári, og sala fyrstu sex mánuði ársins var 346,9 milljónir evra, sem jafngildir 6,3% innri vexti milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi nam 34,7 milljónum evra og 38,3 milljónum evra fyrstu sex mánuði ársins. EBITDA-aukning er 20% milli ára.

Í tilkynningunni segir að áætlað er að endurfjármagna félagið samhliða minnkandi skuldsetningu.