Síðastliðinn mánuð hafa yfir eitt þúsund rekstraraðilar fengið greidda rúma sex milljarða króna í tekjufallsstyrki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, en alls hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Í tilkynningunni segir að tekjufallsstyrkir nýtist fjölmörgum rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og að markmiðið sé að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er yfir 40%.

Þá kemur fram að Skatturinn hafi afgreitt yfir 4.000 umsóknir vegna tekjufalls- og lokunarstyrkja og stuðnings við fyrirtæki við greiðslu launa á uppsagnarfresti, en að búið sé að greiða út styrki fyrir um 85% umsókna um tekjufallsstyrki.

Lítil fyrirtæki í miklum meirihluta

Fram kemur að á fjórða þúsund rekstraraðila og tugþúsundir einstaklinga hafi síðustu mánuði nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda, sem eru á annan tug talsins, þar á meðal styrki, lán og gjaldfresti.

Þá segir að yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 hafi verið með tíu launamenn eða færri. Þannig hafi þau verið um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki sé að verja störf eins og kostur er, auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.