Emirates-leikvangurinn þekur svæði í Norður-Lundúnum sem telur 17 ekrur og kostaði á fimmta hundrað milljóna punda að reisa. Áætlanir stjórnenda félagsins um nýja völlinn og tekjur af honum voru taldar afar bjartsýnar af sérfræðingum fyrirfram, en árangurinn hefur þó ekki staðið á sér. Á þeirri leiktíð er var að ljúka námu heildartekjur tengdar leikdögum 155 milljónum dollara. Þetta þýðir að fyrir hvern heimaleik sem liðið spilaði í vetur í öllum keppnum námu tekjur af miðasölu, sölu á varningi, veitingum, fyrirtækjaþjónustu og öðru sex milljónum dollara.

Í úttekt forbes.com er Arsenal sagt skjóta enskum meisturum Manchester United ref fyrir rass að þessu leyti, en sama tala fyrir síðarnefnda félagið er fimm milljónir dollara. Til samanburðar nam sami tekjuliður á síðustu leiktíðinni sem félagið spilaði á hinum sögufræga Highbury 82 milljónum dollara. Útlitið er bjart fyrir stjórnendur Arsenal – um 41.000 manns eru á biðlista eftir ársmiða á leiki liðsins, en hver ársmiði kostar á bilinu 1.760 til 3.640 dollara. Í síðasta uppgjöri Arsenal, sem er skráð félag þó eignarhaldið sé þröngt, nam hagnaður félagsins 77 milljónum dollara. Sú afkoma gerir liðið hið fjórða arðsamasta í heimi, á eftir hinu spænska Barcelona (92 milljóna hagnaður), Manchester United (111 milljóna hagnaður) og Real Madrid (112 milljóna hagnaður).