Svo kann að fara að allt að sex félög verði skráð á hlutabréfamarkað á árinu. Því til viðbótar gæti uppgjör föllnu bankanna leitt til skráningar nýju bankanna á markað. Þetta er mat greiningar Íslandsbanka. Í þessum mánuði fara fram hltuafjárútboð VÍS og TM og er stefnt að skráningu þeirra í kjölfarið. Þá stefnir Sjóvá á markað auk þess sem líklegt þykir að fasteignafélagið Reitir, N1 og upplýsingatæknifyrirtækið Advania séu líklegir kandídatar á markað.

Í Morgunkorni deildarinnar í dag er m.a. fjallað um hlutafjárútboð TM dagana 22. til 24. apríl. Rifjað er upp í tengslum við umfjöllunina að í byrjun síðasta árs hafi aðeins fimm félög verið á aðalmarkaði kauphallarinnar. Þ.e. Hagar, Marel, Össur, Icelandair og Bank Nordic. Þrjú félög bættust við á árinu, þ.e. Eimskip, Reginn og Vodafone.

Svipuð velta og árið 1998

Þá kemur fram í Morgunkorninu að veltan á hlutabréfamarkaði hafi aukist í samræmi við þetta. Hún nam 123 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og var það tæplega 40% meira en hún var allt síðasta ár.

Í Morgunkorninu segir:

„Velta íslenski hlutabréfamarkaðarins er þó enn lítill í sögulegu tilliti. Velta í fyrra var svipuð og velta ársins 1998 sé leiðrétt fyrir verðlagsáhrifum og nemur aðeins um 3% af veltu ársins 2007, leiðrétt fyrir fyrrnefndum verðlagsáhrifum. Í samanburðinum við árið 2007 verður samt að horfa til þess að þá var velta hlutabréfamarkaðar í sögulegu hármarki og hlutabréfaverð hér á landi í hæstu hæðum.“