Sex nýir ráðgjafar hafa á undanförnum vikum gengið til liðs við Capacent. Fram kemur í fréttatilkynningu að Ágúst Ólafur Ágústsson, Rósa Guðjónsdóttir, Símon Þorleifsson, Trausti Heiðar Haraldsson, Þór Clausen og Þröstur Freyr Gylfason hafi hafið störf hjá Capacent.

Ágúst Ólafur Ágústsson mun starfa sem ráðgjafi  á sviði fjármála og hagfræði. Ágúst Ólafur var efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og sat hann m.a. í ráðherranefndum um efnahags- og ríkisfjármál, nefnd um fjármálastöðugleika og samráðsnefnd um afnám hafta. Áður starfaði Ágúst hjá Efnahags- og félagsmálastofnun Sameinuðu þjóðanna í New York. Ágúst var alþingismaður á árunum 2003-2009 þar sem hann gegndi m.a. formennsku í viðskiptanefnd þingsins og í Evrópunefnd forsætisráðherra 2008-2009 ásamt því að vera varaformaður Samfylkingarinnar í fjögur ár og formaður Framkvæmdasjóðs aldraða.  Hann situr í bankaráði Seðlabanka Íslands. Ágúst Ólafur er lögfræðingur og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Þá lauk hann MPA námi frá New York University. Hann hlaut sérstaka viðurkenningu Barnaheilla, Save the Children Iceland, fyrir að hafa með starfi sínu bætt réttindi og stöðu barna.

Rósa Guðjónsdóttir
Rósa Guðjónsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rósa Guðjónsdóttir mun starfa sem ráðgjafi á sviði rekstrar, veltufjár og ferlastjórnunar. Rósa er með meistaragráðu í rekstrar- og iðnaðarverkfræði (Engineering Management) frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn og B.Sc.-gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Áður en Rósa kom til starfa hjá Capacent starfaði hún hjá bresku ráðgjafarfyrirtæki við ráðgjöf tengda innkaupastjórnun og umbótum í rekstri verslunarfyrirtækja, með aðsetur í Kaupmannahöfn.

Símon Þorleifsson
Símon Þorleifsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Símon Þorleifsson mun starfa sem ráðgjafi á sviði viðskiptagreindarlausna Capacent og meðal annars annast sölu á lausnum eins og QlikView, Yellowfin, IBM Cognos og Microsoft BI. Símon er með meistaragráðu í verkfræði frá Háskólanum í Álaborg og hefur nýverið fengið svartabeltið í „Lean Six Sigma“. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá HRV Engineering og síðar Azazo. Þess ber að geta að Símon hefur áður starfað hjá Capacent á sviði stefnumótunar og árangursstjórnunnar.

Trausti Haraldsson
Trausti Haraldsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Trausti Heiðar Haraldsson mun starfa sem ráðgjafi á sviði markaða og þjónustu. Trausti er með B. Sc. gráðu í viðskiptafræði og M. Sc. gráðu í markaðsstjórnun. Trausti starfaði áður sem framkvæmdastjóri TH ráðgjafar sem sérhæfði sig í rannsóknum og markaðs-, þjónustu- og sölumálum fyrir ýmis stór fyrirtæki á Íslandi.  Áður vann Trausti sem verkefnastjóri yfir stefnu Íslandsbanka og þar áður sem forstöðumaður gæða-, markaðs- og þjónustumála hjá Byr sparisjóði.

Þór Clausen
Þór Clausen
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þór Clausen mun starfa á sviði ráðgjafar í stefnumótun og mannauði og vinna að frekari uppbyggingu fyrirtækjaþjálfunar/stjórnendaþjálfunar. Undanfarin ár hefur Þór starfað hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem sérhæfir sig í fjárfestingum í einkareknum háskólum. Þór hefur starfað sem forstöðumaður í Opna háskólanum í Háskólunum í Reykjavík og er menntaður viðskiptafræðingur frá HÍ og með meistarapróf í fjármálum og stefnumótun frá sama skóla. Þór hefur réttindi til að leiðbeina á vinnustofum frá Wilson Learning en Capacent hefur nú öðlast einkaleyfi á vörum fyrirtækisins hér á landi.

Þröstur Freyr Gylfason
Þröstur Freyr Gylfason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þröstur Freyr Gylfason mun starfa sem stjórnsýsluráðgjafi með áherslu á stefnumótun, stjórnskipulag, umbætur á ferlum og rekstrar- og stjórnsýsluúttektir. Þröstur Freyr hefur bæði þekkingu og reynslu af stjórnsýslu, íslensku stjórnkerfi og EES-málum. Þröstur Freyr starfaði á skrifstofu Alþingis 2005-2014, lengst af sem sérfræðingur fastanefnda. Árið 2012 var Þröstur Freyr kosinn formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þröstur Freyr er með MA í alþjóðasamskiptum frá HÍ, diplóma í alþjóðastjórnmálafræði frá University of Washington, Seattle. Hann nam hjá U.S. Air Force ROTC, var gistinemi hjá International Peace Academy, New York og er með BA í stjórnmálafræði frá HÍ.