Ástralski bankinn Macquarie Bank hefur áhuga á að gera kauptilboð í breska verðbréfafyrirtækið Williams de Broe, segir í frétt frá breska dagblaðinu The Daily Telegraph.

Landsbanki Íslands, sem keypti þrjú verðbréfafyrirtæki í fyrra, og Kaupþing banki, sem hefur látið í ljós áhuga á að kaupa breskt verðbréfafyrirtæki, hafa verið orðaðir við Williams de Broe.

Ekki er þó talið líklegt að íslensku bankarnir geri kauptilboð í Williams de Broe, sem hollenski bankinn ING hefur sett á sölulista fyrir um 30 milljónir punda, eða rúmlega fjóra milljarða íslenskra króna.

Macquarie Bank hefur einnig orðaður við bresku verðbréfafyrirtækin Numis, Panmure Gordon, Bridgewell og KBC Peel Hunt.

The Daily Telegraph segir bankann einn af sex aðilum sem hafa óskað eftir upplýsingum um Williams de Broe, og útilokar ekki að Kaupþing hafi einnig óskað eftir upplýsingum.

Hins vegar er breska verðbréfafyrirtækið Evolution talið líklegast til að kaupa Williams de Broe.