Á rúmlega ári hefur fjöldi starfsmanna hér á landi á vegum starfsmannaleiga sexfaldast. Voru þeir 1.104 í lok mars síðastliðins en í lok febrúar fyrir ári síðan voru þeir 178 að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Jafnframt fjölgaði starfsmönnum á vegum erlendra undirverktaka á þessu tímabili úr 212 í 475, á sama tíma og atvinnuleysi í mars var 2,4%.

Vantar fagmenn

Elja starfsmannaþjónusta er stærsta starfsmannaleiga landsins, en Arthúr Vilhelm Jóhannesson framkvæmdastjóri segir ástæðuna auk vaxtar í efnahagslífinu vera að ekki sé nægileg nýliðun hér á landi í sumum faggreinum.

„Ýmis fyrirtæki nýta starfsmannaleigur til þess að mæta eftirspurnarkúfum og ráða þá tímabundið til sín starfsmenn,“ segir Arthúr. „Þetta helgast meðal annars af skorti á vinnuafli, einkum á iðnaðar- og verkamönnum og bílstjórum.“

Tvöföldun í sumar

Starfsmannafjöldi Elju mun tvöfaldast í sumar, og verða þeir þá um það bil 600. „Við höfum mannað störf í allt sem snýr að ökutækjum og höfum átt í samstarfi við bílaleigur, bifreiðaumboð, rútufyrirtæki og Strætó,“ segir Arthúr.

„Elja hefur mannað í störf rútu- og strætóbílstjóra, bifvélavirkja, rafvirkja, pípara, málara, starfsmanna í vöruhús auk starfsmanna til þess að annast þrif ökutækja.

Það hefur sömuleiðis verið mikil aukning í framlínustörfum t.d. í þjónustustörfum á Keflavíkurflugvelli, eins í veitingasölu og til að afgreiða bílaleigubíla.“

Greiða samkvæmt íslenskum kjarasamningum

Elja greiðir laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi þó stundum sé greitt betur, en yfirleitt eru samningarnir til sex til 12 mánuði í senn. Jafnframt greiða starfsmennirnir skatta og gjöld hér á landi.

Elja útvegar starfsfólkinu húsnæði, en félagið er með húsnæði á leigu í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.