Á heimasíðu SI segir að breytingarnar á starfsliði samtakanna séu liður í breyttum áherslum í starfi samtakanna, til að styrkja starfsemi þeirra og veita félagsmönnum enn betri þjónustu. Jafnframt verður auglýst á næstunni eftir nýju fólki sem verði ráðið til starfa hjá samtökunum, en einnig munu sex starfsmenn fara frá þeim að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Þetta eru ekki uppsagnir í öllum tilfellum heldur er í sumum tilfellum samið um starfslok eða annað þvíumlíkt,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri samtakanna.

Eins og kom fram í viðtali við Sigurð í Viðskiptablaðinu hyggjast samtökin leggja áherslu á að taka frumkvæði í mikilvægum málum sem varða iðnaðinn, en ekki eingöngu stunda hefðbundna hagsmunagæslu og eru breytingarnar nú sagðar liður í þeirri vinnu.

„Á næstu árum munu Samtök iðnaðarins leggja mesta áherslu á fjóra meginþætti, sem saman mynda undirstöður öflugs atvinnulífs og skipta því miklu máli fyrir iðnað á Íslandi og þannig samfélagið allt,“ segir í tilkynningunni. „Þetta eru menntun, nýsköpun, starfsumhverfi og innviðir.

Íslenskur iðnaður er ein af lykilforsendum velmegunar í landinu - útflutningsverðmæti iðnaðarins nema á fimmta hundrað milljörðum króna og tvær af fjórum meginstoðum íslensks útflutnings eiga rætur í iðnaði.“