Fasteignafélagið Regin hefur sent frá sér Kauphallartilkynningar vegna kaupa þriggja einstaklinga í framkvæmdastjórn og þriggja stjórnarmanna á hlutabréfum í félaginu. Viðskiptin koma í kjölfar þess að Regin lagði fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags í gærkvöldi.

Sigla, fjárfestingarfélag Tómasar Kristjánssonar, stjórnarformanns Regins, keypti í fasteignafélaginu fyrir 80,5 milljónir króna á genginu 24,4 krónur á hlut. Eftir viðskiptin á Sigla 3,6% hlut í Regin.

Heiðrún Emilía Jónsdóttir, sem hefur setið í stjórninni frá árinu 2019, keypti í Regin fyrir nærri 8 milljónir króna. Guðrún Tinna Ólafsdóttir, sem tók sæti í stjórninni árið 2018, keypti fyrir um 2 milljónir.

Kaup stjórnarmanna

Stjórnarmaður Kaupverð Hlutir Gengi
Tómas Kristjánsson 80.501.480 3.299.241 24,4
Heiðrún Emilía Jónsdóttir 7.991.000 327.500 24,4
Guðrún Tinna Ólafsdóttir 1.999.200 84.000 23,8

Þrjár konur í framkvæmdastjórn fasteignafélagsins keyptu einnig hlutabréf í félaginu á genginu 24,4 krónur í dag.

Dagbjört Erla Einarsdóttir yfirlögfræðingur og Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni, fasteignareksturs og reksturs í fasteignum, keyptu hvor um sig í Regin fyrir tæplega 3 milljónir. Rósa Guðmundsdóttir fjármálastjóri keypti í fasteignafélaginu fyrir rúmar 2 milljónir.

Kaup einstaklinga í framkvæmdastjórn

Stjórnandi Kaupverð Hlutir Gengi
Dagbjört Erla Einarsdóttir 3.172.000 130.000 24,4
Sunna Hrönn Sigmarsdóttir 2.975.604 121.951 24,4
Rósa Guðmundsdóttir 1.983.720 81.300 24,4