Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, var með 28 milljónir í laun á síðasta ári og hækkuðu árslaunin um 1.200 þúsund krónur milli ára. Eru mánaðarlaunin því um 2,3 milljónir. Fimm helstu stjórnendur félagsins eru samanlagt með tæpar 88 milljónir í árslaun árið 2009. Það eru að meðaltali rúmlega 1,4 milljónir á mánuði. Heildarlaun stjórnendanna hafa hins vegar lækkað milli ára því árið 2008 fengu þeir rúmlega 99 milljónir samtals í laun. Séu laun þeirra og forstjórans lögð saman eru meðal mánaðarlaun sex æðstu stjórnenda TM um 1,6 milljónir á mánuði.

Alls var launakostnaður TM rúmlega 937 milljónir á síðasta ári. Hækkaði launakostnaðurinn um rúmar 30 milljónir milli ára. Meðalfjöldi starfsmanna árið 2009, umreiknaður í heilsársstörf, var 134. Því má segja að meðal árslaun starfsmanna í TM séu tæpar 7 milljónir á ári eða um 580 þúsund á mánuði.