Íslenska ríkið mun veita sex sveitarfélögum samtals 150 milljóna króna styrk „vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar Covid-19“, segir í tilkynningu frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Sveitarfélögin Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur fá hvert um sig úthlutað 32 milljónir en Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Hornafjörður fá hvert um sig 18 milljónir.

Byggðastofnun birti í maí síðastliðnum samantekt með greiningu á áhrifum hruns ferðaþjónustu á sveitarfélögum og var niðurstaðan sú að ofangreind sex sveitarfélög stæðu verst að vígi.

Atvinnuleysi í þessum sveitarfélögum í júnílok var frá 13%-34% samanborið við 10% atvinnuleysi á landinu öllu, að því er fram kemur í greinargerð tveggja teyma með fulltrúum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Byggðastofnun og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra annars vegar og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga um stöðu og áskoranir sveitarfélaganna.