Sex tilboð bárust í húseignirnar við Bernhöftstorfuna, en tilboði FÍ fasteignafélags slhf. í eignirnar var tekið í gær. Húsin eru í eigu Minjaverndar.

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segist ekki geta gefið upp kaupverðið að svo stöddu. „En ég held að þetta geti verið hagstætt fyrir báða aðila,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að tilboðin í fasteignirnar hafi verið á breiðu bili en hæsta tilboðinu hafi verið tekið. Hann segir líkur á að kaupsamningur verði undirritaður eftir hálfan mánuð. „Það er sá tími sem menn gefa sér í að fara yfir þá fyrirvara sem uppi eru og áreiðanleikaskoðun af hálfu beggja aðila,“ segir Þorsteinn.