Sex nýsköpunarfyrirtæki eru tilnefnd til nýrra Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhend verða á ársfundi samtakanna á morgun, föstudaginn 26. mars. Á ársfundinum verður fjallað um nýsköpun í orku- og veitugeiranum undir yfirskriftinni Sprotar vaxa í frjóum jarðvegi.

Óskað var eftir tilnefningum um fyrirtæki sem byggja á tæknilausnum fyrir orku- og veitufyrirtæki landsins eða þjónustu við þau, eða að þau nýti orku, heitt vatn, neysluvatn, fráveitu og/eða aðra auðlindastrauma til nýsköpunar. Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi úr tilnefningum sem bárust.

Eftirfarandi fyrirtæki eru tilnefnd:

Atmonia:
Fyrirtækið Atmonia stefnir að því að gera umhverfisvæna ammoníaksframleiðslu mögulega með rafefnafræðilegum aðferðum og sérhæfðum efnahvötum og bjóða þannig upp á kolefnislausa framleiðslu áburðar og eldsneytis.

Pure North Recycling:
Pure North Recycling endurvinnur plast að fullu og aðferðir þess byggjast á íslensku hugviti þar sem jarðvarminn og umhverfisvænir orkugjafar eru í aðalhlutverki.

Sidewind:
Sidewind vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip. Fyrirtækið stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum.

GeoSilica:
Nýsköpunarfyrirtækið Geosilica framleiðir fæðubótarefni úr kísil sem finna má í affallsvatni  jarðvarmavirkjana. Slík nýting var óþekkt annars staðar í heiminum þegar fyrirtækið var stofnað árið 2012 og tæknin til að gera það líka.

Laki Power:
Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa tæknibúnað sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma.

Icelandic Glacial:
Icelandic Glacial er fyrsta drykkjavörufyrirtækið sem hefur fengið CarbonNeutral® viðurkenningu en öll starfsemi fyrirtækisins er kolefnisjöfnuð. Notað er hreint íslenskt vatn við framleiðsluna og 100% umhverfisvæn orka.