Sex listamenn hafa verið valdir til að gera tillögur um umhverfislistaverk á svæðinu við Kárahnjúka, segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkun.

Eftirtaldir listamenn hafa verið valdir til þáttöku í lokaðri samkeppni:

Einar Þorsteinn Ásgeirsson
Illur Malus Islandus
Jónína Guðnadóttir
Sigrún Ólafsdóttir
Sigurður Árni Sigurðsson
Vignir Jóhannsson

Fyrr í haust efndi Landsvirkjun til samkeppni um gerð listaverka á svæðinu við Kárahnjúka annars vegar og hins vegar í nágrenni stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Vænta má fregna af samkeppninni um listaverk í Fljótsdal fyrir áramótin.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að ofangreindum listamönnum verði greitt fyrir tillögurgerðina. Forvalsnefndina , sem valdi listamennina sex, skipuðu
þau Erla Þórarinsdóttir myndlistarmaður, Garðar Guðnason arkitekt og Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

?Í samkeppnina bárust margar vandaðar umsóknir frá fjölbreyttum hópi listamanna. Það var því krefjandi verkefni fyrir nefndina að velja aðeins sex til þátttöku í samkeppninni," segir í tilkynningunni.