Sexhundruð þúsund nýir 10 þúsund króna seðlar eru nú komnir í umferð. Ólöf Nordal, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, vakti athygli á þessu í ræðu á ársfundi Seðlabankans í dag. „Eitt af hlutverkum bankans sem almenningur verður helst var við er útgáfa peningaseðla og myntar. Á árinu 2013 var gefinn út nýr 10.000 króna peningaseðill og eru nú um 600 þúsund eintök komin í umferð,“ sagði Ólöf.

Ólöf kom víða við í ræðu sinni, fór yfir helstu lykiltölur í rekstri bankans en hún hún minntist líka á það að senn væru sex ár liðin frá falli stóru bankanna í október 2008. „Við Íslendingar glímum enn við margvíslegan vanda sem á rætur sínar að rekja til þeirra atburða. Seðlabankinn hefur unnið markvisst á mörgum vígstöðvum til að tryggja að íslenska hagkerfið nái aftur þeim styrk og vexti sem nauðsynlegur er til að tryggja góð lífskjör Íslendinga og góðan árangur í samkeppni í alþjóðlegu umhverfi,“ sagði Ólöf.