„Hann er verðmætasta dýrið í allri Ameríku,“ segir Antony Beck, eigandi Gainesway-býlisins í Kentucky í Bandaríkjunum, í samtali við Bloomberg þegar hann er spurður um stóðhestinn Tapit.

Beck keypti þriðjungshlut í hestinum á þrjár milljónir dala fyrir tíu árum síðan. Í dag er hann verðmetinn á 120 milljónir dala, sem þýðir að hlutur Beck hefur meira en þrettánfaldast í verði frá kaupunum. Fjárhæðin jafngildir tæpum sextán milljörðum íslenskra króna.

Til samanburðar má nefna að verðmæti Orra frá Þúfu, frægasta stóðhests á Íslandi, var líklega um 220 milljónir króna þegar mest lét.

Hvert skot af sæði úr Tapit er verðmetið á 300 þúsund dali, eða um 40 milljónir íslenskra króna. Á ársgrundvelli eru um 135 slík seld til kaupenda sem skilar eigendunum um 35 til 40 milljónum dala í tekjur, eða næstum 5 milljörðum íslenskra króna.

Aðeins einn stóðhestur hefur búið yfir verðmætara sæði í sögunni, en það var hesturinn Storm Cat. Hvert skot úr honum seldist mest á 500 þúsund dali.

Nánar má lesa um stóðhestinn Tapit hér.