Sextán umsóknir bárust um lausa stöðu forstöðumanns skrifstofu skilavalds Seðlabanka Íslands en umsóknarfrestur um starfið rann út þann 15. september síðastliðinn. Í hópi umsækjenda eru lögmenn, starfsmenn Seðlabankans og fyrrverandi framkvæmdastjóri Stefnis.

Umrætt skilavald er nýtt stjórnvald sem hefur með höndum undirbúning og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Þótt skilavaldið sé vistað innanhúss hjá Seðlabanka Íslands er stjórnvaldið aðskilið öðrum verkefnum bankans. Markmiðið með því er að tryggja skilvirkni aðgerða, sjálfstæði og komast hjá hagsmunaárekstrum innan bankans.

Ástæðu þess má rekja til kenninga um umburðarlyndi eftirlitsstjórnvalds sem kunni að draga það að grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækis í þeirri von að leyst verði úr erfiðleikunum með öðrum og vægari hætti.

Meðal umsækjenda um starfið má nefna Einar Örn Gíslason, sérfræðing hjá Englandsbanka, Gunnar Viðar, einn eigenda lögmannsstofunnar LEX, og Flóka Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárfestingasjóðsins Stefnis. Þar má einnig finna Matthías H. Johannessen sem eitt sinn var framkvæmdastjóri hjá Actavis. Af starfsfólki Seðlabankans sem sækir um má nefna Ástu Leonhardsdóttur, Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Sigurð Frey Jónatansson.

Listann í heild sinni má sjá hér að neðan:

  • Ásta Leonhardsdóttir, sérfræðingur í fjárhagslegu eftirliti
  • Eggert Páll Ólason, lögmaður
  • Einar Örn Gíslason, sérfræðingur hjá Englandsbanka
  • Flóki Halldórsson, stjórnarmaður
  • Gísli Örn Kjartansson, lögfræðingur
  • Gunnar Viðar, lögmaður
  • Hjálmar Stefán Brynjólfsson, lögfræðingur
  • Hrafn Þórðarson, aðalráðgjafi og eigandi
  • Ingibjörg Jóna Leifsdóttir, sjálfstætt starfandi
  • Jeffrey Benjamin Sussman, framkvæmdastjóri
  • Jónas Þórðarson, forstöðumaður
  • Matthías H. Johannessen, meðeigandi
  • Páll Eiríksson, lögmaður
  • Pétur Örn Sverrisson, lögmaður
  • Sigurður Bjarni Hafþórsson, ráðgjafi
  • Sigurður Freyr Jónatansson, sérfræðingur í þjóðhagsvarúð