Stjórn Klakka ehf hefur ákveðið að bjóða a.m.k. 60% af hlutafé VÍS til sölu í útboði sem áætlað er að fari fram í apríl og hefur stjórn VÍS lagt inn umsókn til Kauphallar um að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri sölu og ferli því sem framundan er.

Í tilkynningu segir að áætlað sé að stærð útboðsins nemi a.m.k. 60% af útgefnum hlutum í VÍS. Gert er ráð fyrir að um 10% verði boðin fjárfestum sem vilja kaupa hlut að andvirði á bilinu 0,1-50 milljónir króna og um 30% verði boðin fjárfestum sem skrá sig fyrir kaupum á hlut að andvirði yfir 50 milljónum, en þessir hlutir verða allir seldir á sama endanlega útboðsgengi sem verður á fyrirfram tilgreindu verðbili. Auk þess er gert ráð fyrir að um 10% verði boðin fjárfestum með áskrift að tæplega 2,5% hlutum og verða þeir seldir hæstbjóðendum. Að auki verður um 10% hlut ráðstafað til viðbótar í framangreindar tilboðsbækur á grunni eftirspurnar. Nánari upplýsingar um VÍS og fyrirkomulag útboðsins verða kynntar samhliða birtingu skráningarlýsingar VÍS.

Markmið Klakka er að útboðið marki grunninn að dreifðu eignarhaldi á VÍS og er þá bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu. Klakki hyggst ekki selja einstökum fjárfesti virkan eignarhlut í félaginu, en kaup á 10% hlut eða stærri í tryggingafélagi eru háð því að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggi fyrir.