Sumarstemming var í Kauphöllinni í dag, en aðeins 60 viðskipti áttu sér stað með hlutabréf. Veltan með hlutabréf nam 668 milljónum króna. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,27% en heildarvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 0,41%.

Mest viðskipti voru með bréf fasteignafélaganna Regins og Eikar. 222 milljónir króna skiptu um hendur í viðskiptum með Reginn, en 97 milljónir í viðskiptum með Eik. Össur hækkaði mest, um 1,98%. Hagar lækkuðu mest, um 1,22%.

Þá voru ein viðskipti með bréf Hampiðjunnar á First North markaðnum, en þau námu heilum 11.480 krónum.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði í dag í 5,7 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 0,2 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,3% í 5,5 milljarða viðskiptum.