Þeir aðilar sem náð hafa 60 ára aldri verður heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslu á sjö ár eins og nú er.

Þá er lagt til að ekkert aldurshámark verði á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris, en í gildandi lögum er það hámark bundið við 75 ára aldur.

Þetta kemur fram í frumvarpi fjármálaráðherra um lífeyrissjóði en að sögn ráðuneytisins eru óvenjumör frumvörp á ábyrgðarsviði fjármálaráðherra nú til meðferðar á Alþingi.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins kemur fram að tillögur að ýmsum breytingum sem markast af því ástandi sem nú ríkir á innlendum fjármálamarkaði er einnig að finna í frumvarpinu.

Þar er meðal annars lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, en í gildandi lögum er umrætt hlutfall 10%.

Jafnframt er lagt til að lögfestar verði samræmdar reglur um fjárfestingastefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði.

Þá kemur fram að samkvæmt gildandi lögum er slíkur sparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingar og samtryggingarsparnaðurinn á meðan aðrir vörsluaðilar hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu sína.

Í frumvarpinu er lagt til, bæði í varúðarskyni og til að gæta samræmis, að allir vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar verði bundnir tilteknum lágmarksskilyrðum varðandi fjárfestingar.

Að lokum er í frumvarpinu að finna bráðabirgðaákvæði þess efnis að munur á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga miðað við tryggingafræðilega athugun í lok árs 2008 geti verið neikvæður um allt að 15% í stað 10% skv. gildandi lögum án þess að skylt verði að skerða réttindi eða hækka iðgjald.