Seychelles-eyjar virðast ætla að verða fyrsta eyríkið til að verða gjaldþrota. Eyjarnar hafa treyst á fiskveiðar og ferðaþjónustu sem hvorutveggja hefur brugðist. Í erlendum fréttaskeytum er bent á að þó þeir skuldi minna en Ísland séu þeir í vonum málum.

Á Seychelles eyjum búa 87 þúsund manns. Skuldir almennings og opinberra aðila nema 800 milljónum Bandaríkjadala. Upphæð sem okkur Íslendingum þætti ekki há en er talsvert fyrir fátæka eyjaskeggja. Á síðasta ári gátu þeir ekki greitt af 230 milljóna dala láni sem Lehman Brothers höfðu veitt þeim. Í framhaldi þess kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeim til hjálpar og lánaði þeim 26 milljónir dala. Um leið var settur upp tveggja ára aðgerðapakki sem meðal annars fólgst í því að 12,5% opinberra starfsmanna var sagt upp eða 1.800 manns. Um leið var gjaldmiðill þeirra, rúpían, sett á flot en hún hefur lækkað um helming gagnvart bandaríkjadal. Einnig var samþykkt að selja eignir ríkisins.

Nú eru stjórnvöld í viðræðum við erlend yfirvöld um eftirgjöf á 250 milljóna dala láni. hafa þeir farið fram á að helmingur þess verði afskrifaður en það var fengið að láni hjá Bretum, Frökkum og öðrum löndum Vestur-Evrópu. Samdráttur þjóðartekna er áætlaður um 9,5% eða svipað og gert er ráð fyrir hér á landi.

Seychelles-eyjar eru eyríki í Indlandshafi um 1600 km austan við meginland Afríku og norðaustan við Madagaskar. Önnur eyríki sem liggja nærri Seychelles-eyjum eru Máritíus og Réunioneyja í suðri og Kómoreyjar í norðaustri. Eyjarnar eru um 115 talsins, þar af 33 byggðar.