Seyðfirðingum er óheimilt að flýta klukkunni um tvær stundir að sumarlagi. Á fréttavef RÚV kemur fram að lög frá 1968 taka þar af öll tvímæli.

Í lögum númer sex frá árinu 1968 segir: Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich.

Eins og kunnugt er hafa athafnaraðilar á Seyðisfirði borið upp þá hugmynd að íbúar á Seyðisfirði flýti klukku sinni um tvær klukkustundir á sumarmánuðum til að njóta dagsins betur eins og fram hefur komið í máli þeirra.

Efnt verður til borgarafundar á Seyðisfirði í kvöld þar sem kostir og gallar þess að flýta klukkunni verða ræddir en áformað er að gera það á þjóðhátíðardaginn.

Á vef RÚV kemur fram að bæjarráð kaupstaðarins hefur þegar tekið málið fyrir og lýst yfir stuðningi við tillögurnar.