Samtök ferðaþjónustunnar fagna gagnlegri skýrslu sem matvælaverðsnefnd forsætisráðherra hefur skilað þótt það séu vonbrigði að ekki hafi náðst samstaða í nefndinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Þar kemur fram að veitingamenn hafa lagt mjög mikla áherslu á að tollar verði afnumdir og að öll sala matvæla sé í sama virðisaukaskattsþrepi, sama hvar eða hvernig hún er seld. Það er brýn nauðsyn að lækka matarverð á Íslandi.

Matur er í dag seldur með svo fjölbreyttum hætti og á svo margbreytilegum sölustöðum að það er orðið mjög nauðsynlegt að jafna og einfalda skattkerfið. Í dag er ófremdarástand í samkeppnismálum veitingastaða vegna skattkerfisins þar sem sama varan er seld með mismunandi virðisaukaskatti. Einfalt, sanngjarnt og gegnsætt skattkerfi leiðir jafnframt til minni undanskota. Veitingamenn hafa lengi bent á slæma stöðu sína en þeir eru ásamt öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu í mikilli samkeppni á alþjóðavettvangi.

Samtökin skora á ríkisstjórnina að koma þessum brýnu hagsmunamálum jafnt almennings sem atvinnulífsins í viðunandi horf sem allra fyrst.