Fjárfestingafélagið SF III slhf., greiddi 2,1 milljarð króna út til hluthafa með lækkun hlutafjár félagsins í kjölfar sölu félagsins á 82% hlut í Jarðborunum, samkvæmt gögnum sem send voru til fyrirtækjaskrár.

Archer Norge AS og Kaldbakur ehf., dótturfélag Samherja, gengu nýverið frá kaupum á öllum hlutum í Jarðborunum, en eftir viðskiptin er félagið í jafnri eigu félaganna tveggja.

Á meðal hluthafa í SF III voru Kaldbakur, lífeyrissjóðir og SÍA I, framtakssjóður í rekstri Stefnis, en honum var slitið um miðjan desember í fyrra.

Í kjölfar sölunnar óskaði þáverandi forstjóri Jarðborana, Sigurður Sigurðsson, eftir því að láta af störfum og stjórnarformaður félagsins, Höskuldur H. Ólafsson, tók tímabundið við starfinu.

Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 19. janúar.