Vegagerðin hefur framlengt samning við Samskip um rekstur Sæfara til næstu tveggja ára en félagið hefur séð um rekstur ferjunnar frá 1. maí 1996. Tekur framlengingin gildi nú um áramót.

Sæfari siglir milli Dalvíkur, Grímseyjar og Hríseyjar. Siglt er þrisvar í viku milli Dalvíkur og Grímseyjar; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, en tvisvar milli Dalvíkur og Hríseyjar; á þriðjudögum og fimmtudögum. Skipstjóri á Sæfara er Sigurjón Herbertsson.

Sæfari siglir undir merkjum Landflutninga-Samskipa og er ferjan hluti af innanlandskerfi Samskipa. ?Rekstur ferjunnar hefur gengið mjög vel alveg frá því að við tókum við henni árið 1996,? segir Jón Arnar Helgason, þjónustufulltrúi hjá Landflutningum-Samskipum í tilkynningu frá félaginu. ?Flutningar hafa aukist ár frá ári, bæði vöruflutningar og farþegaflutningar og munar þar sérstaklega mikið um þá aukningu sem orðið hefur í farþegaflutningum til og frá Grímsey.?

Mest munar um þann stöðugt vaxandi hóp ferðamanna sem nýtir sér ferðir Sæfara yfir sumartímann. Farþegar með Sæfara í fyrra voru samtals 3.245 talsins, sem var 30% aukning frá árinu 2002, og á þessu ári stefnir í enn betri útkomu því í ágústlok var fjöldi farþega með ferjunni kominn í 3.315 manns.