Stjórn Samtök fjármálafyrirtækja hefur staðfest aðild Auðar Capital hf. að SFF.

Auður Capital hf. fékk starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu sem fjárfestingarbanki í apríl síðastliðnum og býður stjórnin SFF nýtt aðildarfélag velkomið.

Ný vídd í viðskiptalífið

Í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist á föstudag sagði Kristín Péturssóttir, forstjóri Auðar Capital meðal annars:

„Fjárfestar gera í auknum mæli kröfur um að fyrirtæki sem þeir fjárfesta í taki samfélagslega ábyrgð og séu samfélagslega meðvituð. Þetta snýst bæði um fagfjárfesta og einstaklinga.“

„Það er hins vegar ekki svo að til sé ákveðin mælieining sem segir til um hvort að fyrirtæki sé samfélagslega ábyrgt eða ekki. Ákveðnir þættir geta hins vegar verið til staðar. Við erum að tala um meðvitund, sem er vissulega stórt hugtak, en jafnframt ný vídd í hugsunina í viðskiptalífinu,” sagði Krístín.

SFF, heildarsamtök fjárfjármálafyrirtækja á Íslandi, urðu til í nóvember 2006 við sameiningu Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Sambands íslenskra tryggingafélaga.

Áður höfðu SBV orðið til við sameiningu Sambands íslenskra viðskiptabanka, Sambands lánastofnana, og Samtaka verðbréfafyrirtækja í desember 2000.

Aðildarfélög SFF eru á fimmta tug talsins og til þeirra teljast viðskiptabankar, fjárfestingarbankar, sparisjóðir, tryggingafélög, verðbréfafyrirtæki, eignaleigur og kortafélög.

Meginverkefni SFF eru að tryggja samkeppnishæf starfsskilyrði fyrir fjármálafyrirtæki á Íslandi og vera upplýsingaveita um íslenska fjármálageirann.