Byggja þarf brú milli Íslands og annarra landa í kjölfar þess hruns sem orðið hefur og fá kröfuhafa bankanna með í endurreisnina.

Ein leið gæti verið að ná samkomulagi við þá um að á móti kröfum sínum eignist þeir hluti í nýju bönkunum. Ljóst má vera að það verður erlendum bönkum í kröfuhafahópnum kappsmál að koma rekstrinum sem fyrst í það horf að þeir geti selt eignarhluti sína á sem bestu verði.

Þetta kemur fram í bréf sem Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) hafa sent formönnum stjórnmálaflokkanna en þar undirstrika samtökin mikilvægi þess að allar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við endurreisn fjármálamarkaðar á Íslandi horfi til framtíðar með það að markmiði að hér á landi geti þrifist blómlegt atvinnulíf sem skapi störf og verðmæti.

„Sú hætta er raunveruleg að íslenskir bankar fái ekki að neinu marki aðgang að erlendri fjármögnun á komandi árum, sem mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslensk fyrirtæki og heimili,“ segir í bréfinu.

„Því er mikilvægt að stjórnvöld séu í samstarfi sínu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vakin og sofin yfir aðgerðum sem vega á móti þessari hættu.“

Þá segja samtökin mikilvægt að unnið sé markvisst að því að skapa aðstæður sem gefa möguleika á að aflétta gjaldeyrishöftum.

„SFF kalla eftir skýrri aðgerðaáætlun hvað það varðar og bjóða fram krafta sína til að aðstoða við þá vinnu,“ segir í bréfinu.

„Á sama tíma þurfa allar aðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka að miða að því að langtímajafnvægi komist á gengismál, tryggja að verðbólga gjósi ekki upp á ný en gæta þess einnig að ekki verði verðhjöðnun.“

Sjá nánar á vef SFF.