Dómari í Bretlandi ávítti fyrir helgi bresku efnahagsbrotadeildina (SFO) fyrir alvarlega vanhæfni í kjölfari húsleitar hjá athafnamanninum Vincent Tchenguiz. Fulltrúar SFO mættu fyrir dómara síðasta miðvikudag til að óska eftir sex vikna frest til að byggja mál gegn Vincent Tchenguiz og bróður hans Robert. Breskir fjölmiðlar greindu frá því um páskana að fulltrúar SFO hafi viðurkennt að þeir hefðu engin haldbær gögn sem leitt gætu til ákæru eftir að hafa gert húsleit hjá Vincent Tchenguiz.

Sem kunnugt er voru Tchenguiz bræðir fyrirferðamiklir viðskiptavinir Kaupþings og Robert Tchenguiz sat um tíma í stjórn Exista, sem var stærsti eigandi Kaupþings.

SFO gerði húsleit hjá á skrifstofum bræðranna í mars í fyrra vegna rannsóknar á viðskiptum þeirra við Kaupþing. Þeir bræður voru í kjölfarið handteknir og færðir til yfirheyrslu. Í febrúar sl. sendi SFO Vincent Tchenguiz afsökunarbréf vegna húsleitarinnar. Fram kom í bréfinu, sem FT hafði undir höndum, að mistökin lægu í misskilningi efnahagsbrotadeildarinnar á gögnum sem voru grundvöllur húsleitarheimildar sem náði m.a. til heimilis Vincent Tchenguiz.

Sem fyrr segir ávítti dómarinn SFO harðlega fyrir seinagang í málinu auk þess sem sagði að málið væri reist á veiku stoðum, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times (FT). Hann gaf SFO þó frest út þennan mánuð til að leggja fram ákæru.

„Þetta er algjör vanhæfni, ég hef aldrei kynnst öðru eins,“ hefur FT eftir dómaranum.