Breska efnahagsbrotalögreglan, Serious Fraud Office (SFO), hefur fellt niður rannsókn sína á tveimur fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings, þeim Ármanni Þorvaldssyni, sem var bankastjóri dótturfyrirtækisins Singer & Friedlander, og Guðna Níels Aðalsteinssyni, fyrrverandi yfirmanni fjárstýringar Kaup- þingssamstæðunnar.

Rannsóknin hófst með húsleitum og handtökum í mars í fyrra, bæði í London og á Íslandi, og beindist að lánveitingum Kaupþings til bræðranna Roberts og Vincents Tchenguiz. Alls tóku 135 manns þátt í aðgerðunum og níu voru handteknir. Ármanni og Guðna var tilkynnt um niðurfellinguna fyrir viku en fyrst var greint frá niðurstöðunni opinberlega í breska blaðinu Telegraph í gær.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ármann að þessu fylgi blendnar tilfinningar. Hann sé auðvitað mjög feginn að vera laus við þetta, en sé hins vegar frekar fúll yfir að hafa lent í þessu yfirhöfuð, því þetta hafi verið fjarstæðukennt frá upphafi.

Enn stendur yfir rannsókn á þætti Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, í viðskiptunum, sem og Roberts Tchenguiz og tveggja nánustu samstarfsmanna hans.