Greint er frá því breska blaðinu Daily Telegraph um helgina að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) rannsaki nú Landsbankann en eins og fram hefur komið hefur deildin verið með Kaupþing til rannsóknar. Að sögn blaðsins er verið að rannsaka fjármagnsflutninga af Icesave-reikningum í aðdraganda falls bankans og rannsóknin unnin í samstarfi við yfirvöld hérlendis og í Lúxemborg.

Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var stærsti hluthafi bankans ásamt föður sínum á þessum tíma, segir á vefsíðu sinni að fréttin komi á óvart enda hafi breska fjármálaeftirlitið, FSA, fylgst náið með Landsbankanum sumarið 2008. Óeðlilegir fjármagnsflutningar hefðu því verið óhugsandi án þess að sjást á radar FSA.