Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office, skammstafað SFO) skoðaði það síðasta sumar að hefja rannsókn á braski með millibankavexti innan fjármálageirans. RIchard Alderman, forstjóri deildarinnar, mun hins vegar hafa hætt við öll slík áform enda óttast að hún yrði kostnaðarsöm og gengi á takmörkuð fjáráð deildarinnar.

Frá þessu er greint í netútgáfu breska dagblaðsins Financial Times og bent á alvarlega vankanta sem hafi komið í ljós sem varði fjárveitingar til SFO. Þær hafi einfaldlega verið svo lágar og deildin það fjárvana að hún hafi ekki haft burði til ítarlegra rannsókna á málum sem tengdust grun um fjármálamisferli.

Stofnunin varð fyrir miklum álitshnekkjum þegar hún ýtti úr vör rannsókn á viðskiptum Tchenguiz-bræðra við Kaupþing í fyrravor. Húsleit var gerð á heimilum þeirra árla morgun og á fleiri stöðum sem þeir tengdust. Vincent Tchenguiz, eldri bróðir Roberts Tchenguiz, sagðist saklaus af öllum ásökunum efnahagsbrotadeildarinnar og fór í skaðabótamál. Starfsmenn efnahagsbrotadeildarinnar viðurkenndi fyrir stuttu síðan ekki hafa stuðst við nægilega góð gögn þegar þeir létu til skarar skríða. Svo mikið var bakslagið eftir að í ljós kom að húsleitin hjá Vincent Tchenguiz virðist hafa verið gerð á veikum grunni að deildin hætti húsleitum að morgni. Þá hætti forstjórinn og hefur nýr maður sest í sæti hans.

Financial Times segir bandarísk yfirvöld hafa af þessum sökum rannsakað málið í upphafi og svipt hulunni af misferlinu innan veggja breska bankans Barclays. Grunur leikur á að markaðsmisnotkun með millibankavexti hafi átt sér stað hjá fleiri bönkum.