Launakönnun meðal félagsmanna SFR sýnir að launamunur kynjanna er viðvarandi og vaxandi vandamál hjá hinu opinbera og lítur SFR það mjög alvarlegum augum.

Þetta kemur fram á vef SFR í dag en SFR birtir í annað sinn launakönnun félagsins meðal félagsmanna SFR. Launakönnunin miðaðist við 1. febrúar 2008, þannig að 20.300 kr. launhækkun vegna kjarasamninganna frá 1. maí síðastliðnum er ekki með í þessum tölum.

Þar kemur fram að miðað við félagsmenn í fullu starfi voru meðalheildarlaun félagsmanna 304.000 kr. á mánuði.

Meðalheildarlaun karla voru 376.081 kr. og meðalheildarlaun kvenna 274.417 kr.

Konur höfðu því samkvæmt launakönnuninni um 27% lægri heildarlaun er karlar, samkvæmt því er fram kemur á vef SFR.

Þá segir jafnframt að í heildarlaunum komi fram launaþættir sem skýra að hluta til hærri heildarlaun karla. Skýringaþættirnir sem tekið er tillit til eru aldur, vinnutími (fjöldi vinnustunda á viku), starfsaldur, starfsstétt, menntun og vaktaálag.

„Til að fá rétta mynd af því hver raunverulegur launamunur er þarf því að leiðrétta samanburðinn fyrir þessum þáttum,“ segir á vef SFR.

„Þegar það hefur verið gert stendur eftir óútskýrður launamunur upp á 17,2%, en var árið 2007 14,3%. Þetta er 2,9% aukning á milli ára.“

SFR segir launakönnunina gefa ítarlegar upplýsingar um kaup og kjör ríkisstarfsmanna og mögulegt sé nú  í fyrsta sinn að gera samanburð á milli ára á launaþróun félagsmanna SFR.

Félagsmenn SFR hækka mun meira en aðrir opinberir starfsmenn

Samkvæmt könnuninni hafa grunnlaun félagsmanna SFR hækkað um 14% og heildarlaun hafa hækkað um 11% á milli áranna 2007 og 2008.

Á sama tíma hefur launavísitala Hagstofunnar fyrir opinbera starfsmenn hækkað um 6,1%.  Hækkunin hjá félagsmönnum SFR er því töluvert meiri en almennt hjá opinberum starfsmönnum á tímabilinu.

Launaþróun - heildarlaun hækka að meðaltali um 11%

Meðalgrunnlaun SFR félaga í febrúar 2008 voru 252 þúsund og meðalheildarlaunin 304 þúsund krónur.

Á milli áranna 2007 og 2008 hækkuðu grunnlaun félagsmanna að meðaltali um 14% og heildarlaun um 11%. Á sama tímabili hækkuðu kjarasamningsbundin laun um 5,26% sem skýrist af 3,2% hækkun launa frá og með 1. maí 2007 og 2% hækkun á launatöflu um áramót 2007-2008.

„Það má því segja að heildarlaun félagsmanna SFR hafi hækkað um 6 prósentustig umfram kjarasamningsbundnar hækkanir á árinu og grunnlaun að sama skapi um níu prósentustig umfram samningsbundnar hækkanir,“ segir á vef SFR.

Könnunin var unnin af Capacent Gallup á tímabilinu 8. febrúar til 31. mars 2008. Að þessu sinni svöruðu 50,8% félagsmanna eða 2.274 einstaklingar. Þar af voru konur um 72% og karlar um 28%. Miðað var við launaseðla frá 1. febrúar 2008.

Þá kemur fram á vef SFR að launakönnunin er unnin í samstarfi SFR og VR sem gefur möguleika á samanburði milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, en VR hefur staðið fyrir svona könnunum í um áratug