Í gær var undirritaður kjarasamningur milli Reykjavíkurborgar og SFR. Á vef SFR kemur fram að samningurinn er á svipuðum nótum og samningur SFR við ríkið og felur í sér hækkun lægstu launa.

Laun undir 180 þúsund krónum munu hækka um 6.750 1. júlí og 1. nóvember og um 6.500 1. júní 2010.

Laun upp að 210.000 krónum hækka árið 2009 en launahækkanir fara stiglækkandi eftir því sem launatalan hækkar.

Árið 2010 munu laun upp að 225 þúsund krónum hækka. Laun fyrir ofan það munu ekki breytast.

Samningurinn verður kynntur og sendur til félagsmanna SFR hjá Reykjavíkurborg. Atkvæðagreiðsla um samninginn mund fara fram á skrifstofu SFR þann 13. ágúst næstkomandi .