SFR — stéttarfélag í almannaþjónustu er langfjölmennasta aðildarfélag BSRB með um 7 þúsund félagsmenn. Stærsti samningsaðili SFR er ríkið og verða samningar félagsins við ríkið lausir 30. apríl. Fyrsti fundurinn í þeim samningaviðræðum var í gær. „Við erum rétt að ýta þessu úr vör,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við erum búin að ná samkomulagi við Sjúkraliðafélag Íslands og Landssamband lögreglumanna um að fara saman í þessar viðræður. Þetta eru þrjú stærstu félögin innan BSRB og þetta hefur ekki verið gert áður svona. Við erum að gera þetta svona því við teljum að í vændum séu erfiðar viðræður.“

Hann segist ekki heyra annað en að félögunum verði boðin 3,5% hækkun og að það rími ansi illa við áherslur þeirra. „Við sem erum að semja við ríkið eigum hæg heimatökin með að benda á að það hafi markað ákveðna stefnu í sínum launamálum með samningunum við lækna og kennara. Þar erum við að tala um allt aðrar hugmyndir en 3,5%. Við munum ekki birta okkar kröfugerð fyrr en í þarnæstu viku. Fyrst ætlum við að klára viðræðuáætlunina.“

Fjallað er ítarlega um yfirvofandi verkföll í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .