Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni þess að boðaðar hafa verð sértækar aðgerðir á vettvangi stjórnvalda til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Því er lýst yfir að Samtökin muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að styðja við stjórnvöld í þessari viðleitni, þannig að „innleiða megi tilhlýðilegar aðgerðir sem snerta fyrirtæki í sjávarútvegi.“

Það er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sem heldur á penna. Tilkynningin fer hér á eftir:

„Líkt og kom fram í yfirlýsingu SFS í fyrri viku, vegna frétta af starfsemi Samherja í Afríku, er afstaða samtakanna skýr og afdráttarlaus. Íslensk fyrirtæki eiga að fylgja lögum, bæði heima og erlendis, og almennt að viðhafa góða viðskipta- og stjórnarhætti. Ásakanir á hendur fyrirtækinu eru alvarlegar og það er verkefni viðeigandi stjórnvalda að rannsaka og taka afstöðu til þeirra.

Við höfum lagt áherslu á að við viljum vera fyrirmynd og í fremstu röð í heiminum þegar kemur að sjávarútvegi. Á Íslandi er fiskveiðistjórnarkerfi sem er leiðandi á heimsvísu þegar litið er til sjálfbærrar nýtingar á fiskistofnum, auk þess sem samvinna sjávarútvegsfyrirtækja við íslensk iðn- og tæknifyrirtæki hefur aukið virði auðlindarinnar umtalsvert. Samvinnan hefur getið af sér nýja auðlind í formi hugvits og þekkingar.

Allt þetta gerir það að verkum að við gerum kröfur til sjávarútvegsins, bæði sem vinnuveitanda og útflutningsgreinar. Þar eru stjórnarhættir ekki undanskildir. Sjávarútvegurinn hefur stigið stór framfaraskref á undanförnum árum. Til dæmis í umhverfis- og loftslagsmálum, þar sem höfðað hefur verið til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja. Samtökin gera sambærilega kröfu til félagsmanna sinna um að stunda heiðarlega, gagnsæja og löglega starfshætti.“