Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa svarað niðurstöðum rannsóknar sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun. Niðurstöðurnar voru á þann veg að Hagstofan taldi ekkert benda til þess að útflutningur til Rússlands hafi verið vanmetinn.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi svöruðu rannsókn Hagstofunnar í samtali við Viðskiptablaðið.

SFS bendir í fyrsta lagi á að loðnuafli á milli áranna 2015 og 2014 hafi verið ríflega þrefaldur.

„Loðnuafli á milli áranna 2015 og 2014 var ríflega þrefaldur. Íslendingar veiddu 111 þúsund tonn árið 2014 og 354 þúsund tonn árið 2015. Í áætlun SFS var gert ráð fyrir að tekjur af loðnu til Rússlands myndu fara úr 3,9 milljörðum króna (skv. Hagstofu 2014) í 11,2 milljarða árið 2015 (hækkun um 7,3 milljarða króna). Lang stærsta einstaka skýringin á af hverju búist var við auknum tekjum til Rússlands áætlað 2015 vs. rauntölur 2014.“

SFS benda í öðru lagi á að hollenski markaðurinn taki ekki við markríl og loðnu að því marki sem gert er ráð fyrir í tölum Hagstofunnar.

„Samkvæmt tölum Hagstofunnar árið 2014 var fluttur út makríll frá Íslandi fyrir um 5 milljarða króna til Hollands og um 400 milljónir króna af frystri loðnu. Ekki er vitað til þess að markaður fyrir frysta loðnu og makrílafurðir sé slíkur í Hollandi að hann taki við slíku magni frá Íslandi til endanlegrar neyslu þar í landi.“

Í þriðja lagi tekur rannsókn Hagstofunnar ekki tillit til sjávarafurða sem fara áfram til Rússlands í gegnum Klaipeda í Litháen.

„Skýrsla Hagstofunnar tekur ekki tillit til í rannsókn sinni á hvað kann að fara áfram til Rússlands í gegnum Klaipeda í Litháen. Skýrslan bendir á með réttu varðandi útflutning til Hollands að: „sjávarafurðir eru oft sendar til Rotterdam vegna geymsluskorts á Íslandi og til að minnka afhendingartíma.“  Það sama gildir um útlutning til Litháen á uppsjávarafurðum að hann fer fyrst og fremst áfram til Rússlands og Austur-Evrópu.“

Að mati SFS er því hægt að fullyrða að áætlun fyrir útflutning á sjávarafurðum til Rússlands árið 2015 hefði að óbreyttu verið mun hærri en rauntölur sýna fyrir árið 2014 hjá Hagstofu Íslands.