Íslenska útrásarfyrirtækið Bakkavör Group,  hefur skipað sér á bekk illa þokkaðra fyrirtækja í Evrópu og á heimsvísu að mati launþegasamtaka.

Þetta kemur fram í pistli á vef Starfsgreinasambandsins (SGS) en undir hann skrifar Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri SGS.

„Fyrirtækið virðist eiga við fjárhagsörðugleika að stríða og mun því segja upp um 1500-2000 manns af um 14.000 starfsmönnum sínum á Bretlandseyjum,“ segir Skúli í pistlinum.

„Bakkavör virðist ekki fara að lögum um evrópsk samstarfsráð sem skylt er að starfrækja í fjölþjóðlegum fyrirtækjum á evrópska efnahagssvæðinu. Einnig hefur fyrirtækið valið að vilja ekki undirgangast þá eðlilegu kröfu að virða grundvallarréttindi launafólks og hafnar samstarfi við hina evrópsku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu í því sambandi.“

Þá segir Skúli að þess hafi verið óskað i framhaldi af staðhæfingum um að Bakkavör bryti á bak aftur tilraun starfsmanna til að stofna verkalýðsfélag til að semja um kaup og kjör hjá fyrirtækinu í Bandaríkjunum.

Forsaga málsins er sú, að sögn Skúla, að Alþjóðasamtökum starfsfólks í matvælaiðnaði (IUF) barst beiðni um aðstoð, þar sem Bakkavör vildi ekki semja við starfsmenn og dró í efa rétt þeirra til að stofna verkalýðsfélag við fyrirtækið í USA.

Sjá nánar á vef SGS.