Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) við Bændasamtök Íslands um kaup og kjör starfsmanna á bændabýlum.

Þetta kemur fram á vef SGS.   Samningurinn tekur til starfsmanna sem vinna við almenn landbúnaðarstörf á bænda­býlum. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta fari sú starfsemi fram á lögbýlum. Ráðskonur og matráðar á bændabýlum falla einnig undir samninginn.

Á vef Bændablaðsins kemur fram að samningurinn gildi frá 1. maí sl. til loka nóvember 2010.

Þá segir að ýmis nýmæli eru í þessum samningi, svo sem að starfsmönnum eru nú tryggðar starfsaldurshækkanir, auk þess sem ný ákvæði eru um aðbúnað og vinnuvernd. Þá fá landbúnaðarverkamenn aðgang að fræðslusjóðum atvinnulífsins.

Samningurinn kveður á um að byrjunarlaun skuli vera 152.711 kr. á mánuði fyrir yngri en 22 ára og að þau hækki í 160.030 kr. eftir sjö ára starf. Þá er kveðið á um að sé starfsmanni falin ábyrgð á búrekstri, svo sem við afleysingar í fríum bónda, skuli samið sértaklega um álag fyrir það.