Royal Dutch Shell hefur áfrýjað úrskurði hollenskra dómstóla sem kveður á um að fyrirtækið þurfi að minnka kolefnisútblástur sinn um 45% fyrir árið 2030, samanborið við útblástur fyrirtækisins árið 2019. Olíufyrirtækið gagnrýnir að það eitt sé tekið fyrir og segir að aðgerðir í loftlagsmálum krefjist samvinnu.

„Að dómstólar taki eitt fyrirtæki fyrir er ekki skilvirk leið,“ er haft eftir Ben van Beurden, forstjóra Shell, í frétt Financial Times. „Það þarf skýra og metnaðargjarna stefnu sem mun leiða til breytinga í orkugeiranum í heild sinni. [...] Við munum áfrýja dómnum, þar sem loftslagsbreytingar eru vandamál sem krefjast bæði brýnna aðgerða og nálgunar sem er hnattræn, lýtur að samstarfi og hvetur til samhæfingar milli allra hagaðila.“

Van Beurden segir að þó að fyrirtækið styðji aðgerðir til að bregðast við loftlagsvánni hafi úrskurðurinn ekki tekið að fullu tillit til áforma Shell í þessum efnum. Olíufyrirtækið hefur heitið því að nettó kolefnisútblástur verði kominn í núll árið 2050. Þá hafi fyrirtækið byrjað að fjárfesta í öðrum orkugjöfum með það í huga að minnka olíuframleiðslu sína í framtíðinni.

Shell áætlar að útblástur af völdum fyrirtækisins hafi náð hámarki sínu árið 2018 og að olíuframleiðsla hafi toppað árið 2019.

Hollenski dómarinn Larisa Alwin sagði í úrskurði sínum í maí að núverandi stefna Shell í loftlagsmálum væri ekki nógu vel skilgreind og að það væri skylda fyrirtækisins af mannúðarástæðum að taka frekari skref í þessum efnum.